Ársskýrsla 27. apríl 2016

Skýrsla formanns á aðalfundi 27. apríl 2016

Stjórnarfundir starfsársins 2015 – 2016 voru þrettán talsins. Í stjórn sitja Anna Valdimarsdóttir,  Annetta Ingimundardóttir, Björg Guðmundsdóttir, Helena Bragadóttir og Marteinn Steinar Jónsson og réðu þau ráðum sínum með hag félagsins í huga. Í því fólst meðal annars að skipulegga félagsfundi og voru fjórir slíkir haldnir á starfsárinu.

Fyrsti félagsfundur starfsársins var haldinn miðvikudaginn 30. september.

Þar var Hörður Þorgilsson fráfarandi formaður með innlegg og var honum þakkað fyrir gott starf í þágu félagsins.  

Nýr formaður, Anna Valdimarsdóttir og gjaldkeri félagsins Marteinn Steinar Jónsson sögðu frá og sýndu myndir og vídeó  frá  ferð sinni á 20. þing International Society of Hypnosis í París í ágústmánuði. Auk þess sagði Marteinn frá vinnustofu sem hann sótti á þinginu um sjálfsdáleiðslu við meðhöndlun höfuðverkjar semJeffrey E. Lazarus hélt og Anna sagði frá myndlíkingu (metaphor) af vinnustofu Stefan Hammel og las metaphor eða dæmisögu úr bók sinni Hugrækt og hamingja.

Annar félagsfundur starfsársins var 25. nóvember 2015 og þar fjallaði Annetta A. Ingimundardóttir fjölskyldumeðferðar-fræðingur/iðjuþjálfi og stjórnarmeðlimur hvernig “tapping” eða EFT( emotional freedom techniques) getur nýst í meðferðarstarfi og bauð auk þess fundargestum upp á verklegar æfingar í tapping.

Þriðji félagsfundurinn var haldinn 3. Febrúar 2016 og þar sögðu fjórir ráðstefnufarar á 12. Alþjóðaþingið í Phoenix, The International Congress on Ericksonian Approaches to Psychotherapy 10. – 13. desember 2015 frá því sem þeim fannst markvert, en það voru þær Þuríður Hjálmtýsdóttir, Vilborg G Guðnadóttir, Salbjörg Bjarnadóttir og Guðbjörg Sveinsdóttir.  Það var áhugavert að fá að heyra bæði um formlega fræðslu sem fram fór á þinginu og það sem fram fór af óformlegra tagi.  

Síðasti félagsfundur starfsársins var haldinn 16. mars og þar hélt Vilborg G. Guðnadóttir geðhjúkrunarfræðingur fjölskylduþerapisti og deildarstjóri barna- og unglingageðdeildar BUGL erindi undir heitinu: Breytur sem stýra árangri meðferða. Og í undirtexta sagði meðal annars: Í dag hafa fræðimenn og rannsakendur komist að því að það er ekki meðferðarlíkön og færni þerapista í notkun þeirra sem ræður meðferðarárangri heldur gæði meðferðartengsla og meðferðarsamstarfs – algerlega óháð um hvaða meðferð er að ræða.

Góður rómur var gerður að erindi Vilborg og líflegar umræður á eftir.

Og það er ástæða til að geta þess að sú nýbreytni var tekin upp á starfsárinu að enda fundaboð á félagsfundi á að hvetja félagsmenn til að fá sér bita saman á einhverju vertshúsi borgarinnar og halda þannig áfram að kynnast og fræðast hvert af öðru.  Góður rómur var gerður að þessari nýbreytni og ávallt einhverjir sem halda áfram óformlegri samveru eftir félagsfundi.

Auk félagsfundanna var Dagur dáleiðslunnar haldinn hátíðlegur á veitingahúsinu Nauthól eins og hefð er komin á í kringum afmæli Jakobs Jónassonar. Að þessu sinni bar fundinn upp á sjálfan afmælisdaginn 25. október. Það er ástæða til að geta þess að Ingólfur Sveinsson gerði samantekt um sögu og starf Jakobs sem var sett inn á heimasíðu félagsins fyrir hátíðarfundinn auk þess sem Ingólfur sagði frá sögu félagsins og Jakobi á fundinum.      

Það er einnig hefð komin á að fá einhvern utan félagsins til að vera með erindi fyrir okkur á  degi dáleiðslunnar og í þetta sinn var Pétur Gunnarsson rithöfundur gestur okkar og hann talaði um hið mikla hlutverk sem undir- og dulvitundin gegnir í starfi rithöfundar. Eins og geta má nærri var það bæði skáldlegt og stórmerkilegt erindi. 

Og þá víkjum við að hópastarfi vetrarins.

Á degi dáleiðslunnar lágu frammi listar sem félagsmenn gátu skráð sig á sem höfðu áhuga á að taka þátt í æfingahópum í dáleiðslu líkt og starfsárið á undan. Það verður að segjast eins og er að einhverra hluta vegna rak ekkert okkar í stjórninni minni til að hafa tekið með okkur listana af Nauthóli og því var félögum boðið að skrá sig upp á nýtt í tölvupósti þar sem þeir völdu um hóp sem væri fyrst og fremst verklegs eðlis, fyrst og fremst fræðilegs eðlis eða blanda af hvoru tveggja.

Langflestir kusu hóp sem sameinaði þetta tvennt, verklegar æfingar og fræðilega umfjöllun. Úr urðu því tveir dáleiðsluhópar, sjö í hvorum hóp og var þátttakendum sendur tölvupóstur með upplýsingum um sinn hóp en að öðru leyti lagt í þeirra hendur að hafa samband hver við annan og skipuleggja hópastarfið.

Og þá er eftir að segja frá meistara okkar dr. Michael Yapko en hann var aftur með dáleiðslunám á vegum félags okkar og Endurmenntunar í maí og ágúst 2015.  Eins og í fyrra dáleiðslunáminu var vel mætt og þó nokkrir úr náminu gengu í félagið eftir að formaður lét ganga lista í lok námsins. Ekki má sleppa að nefna ákaflega fjörugt partý sem nemendur í náminu stóðu að og undirrituð fékk að vera með í og dreymir um að halda slíkt partý á  vegum félagsins með tónlistarflutningi og söng.

En Michael Yapko kemur aftur til landsins í nóvember 2016 og verður með masterklass á vegum Endurmenntunar HÍ fyrir þá sem hafa lokið langa dáleiðslunáminu eða öðru grunnnámi í dáleiðslu.  Félögum var sent bréf með upplýsingum um námið og þær má einnig nálgast á heimasíðu Endurmenntunar HÍ. Snemmskráning á námskeið Yapko er til 1. júlí.

Og þá er þess að geta að ný heimasíða félagsins var opnuð daginn fyrir aðalfund og kynnti Marteinn, gjaldkeri félagsins hana á aðalfundinum við góðar undirtektir, en hann hefur, að öðrum stjórnarmönnum ólöstuðum, lagt mikla vinnu í heimasíðugerðina ásamt utanaðkomandi aðstoð fagmanna á sviði heimasíðugerðar.

Á næsta starfsári er áætlað að gera síðuna enn betri og öflugri, koma á lokuðum feisbókarhóp félagsmanna og halda að öðru leyti áfram starfssemi félagsins með svipuðu sniði og verið hefur.

Virðingarfyllst

Anna Valdimarsdóttir